nýjustu greinarnar

Barnalán – Ættleiðingaferli

Við höfðum nýlokið okkar fyrstu ( og einu) glasameðferð, sem mistókst, þegar við tókum ákvörðun um að ættleiða barn. Ákvörðunin var ekki erfið því fyrir okkur var glasameðferðir ekki eitthvað sem okkur langaði að gera aftur.  DNA var heldur ekki eitthvað sem skipti okkur máli og okkur var sama hvaðan gott kom. Við þráðum að eignast barn. Meðganga og fæðing var aukaatriði í okkar huga. Við lágum uppí rúmi seint að kvöldi þegar við ákváðum að ættleiða og til þess þurftum við að vera gift. Við vissum að ættleiðingarferli væri dýrt  þannig að við tókum þá ákvörðun að gifta okkur í leynd. Við vorum starx ákveðin í að barnið okkar yrði fætt á Indlandi því systursonur minn á Indverskan föður og því hefðum við tengsl við landið og yrði það örugglega barninu styrkur að eiga frænda sem ætti sama uppruna og það sjálft. Eftir brúðkaupið fannst okkur mjög viðeigandi að fara ásamt svaramönnum okkar og mökum á Austur indíafélagið að borða.

Við greiddum biðlistagjald á skrifstofu Íslenskrar Ættleiðingar 21.des 2000.Eftir að vera komin í gegnum nálarauga félagsmála yfirvalda og komin með stympil um að við værum hæf í að ættleiða barn  tók við bið eftir barninu. Við biðum í 21 mánuð eftir upplýsingum um barn. Biðin var oft á tíðum erfið. Í upphafi biðtímans var okkur sagt að áætlað væri að þetta ferli tæki 18 mánuði í heild sinni ,svo hver mánuður  eftir það var mjög lengi að líða.Ég uppgötva í lok nóvember 2001 að ég er ófrísk en það kom fljótlega í ljós að ekki var allt eins og það átti að vera því fóstrið óx ekki eðlilega og var fylgst með mér í sónar á tveggja vikna fresti  þar til um miðjan jan 2002 að það kom í ljós að það var enginn hjartsláttur lengur og fóstrið var dáið. Þetta var okkur gríðarlega erfiður tími .

Föstudaginn 13.september 2002 fengum við svo símtalið góða þar sem að við fengum að vita að við ættum agnarsmáa dóttur á Indlandi. Hún var fædd um miðjan janúar 2002 og því 8 mánaða gömul. Hún var fædd 5 merkur  og var hún búin að heija mikla lifsbaráttu á sinni stuttu ævi. Það hvarlaði aldrei annað að okkur  en að þarna væri barnið okkar komið og skrifuðum við undir vilja yfirlýsingu um að við vildum ganga henni í foreldrastað. Lýsingin á dóttur okkar var „hún er agnarsmá,gullfalleg með fullt af hári“ og nú þráðum við ekkert heitar en að fá að bera hana augum og þá voru góð ráð dýr því við bjuggum í Vestmannaeyjum og helgi framundan og myndin ásamt gögnum voru í pósti og ekki gátum við beðið fram yfir helgi að sjá barnið. Starfsmaður ÍÆ lét okkur vita af hjónum á Selfossi sem væru nýkomin heim væru með myndir af dóttur okkar og við mættum koma okkur í samband við þau og nálgast myndirnar og með hjálp góðra vina birtist svo draumadísin á tölvuskjánum okkar um kl 23:00 kvöldið 13.sept´02. Upplifununn að sjá barnið sitt í fyrsta sinn er algerlega ólýsanleg. Hún var svo falleg ,ó svo falleg. Algerlega fullkomin og það sem kom mér svo á óvart var að mér fannst hún bara algerlega falla inní litlu fjölskylduna okkar. Hún var mér ekki á nokkurn hátt framandi og hún gat engann veginn litlið út á annan hátt. Þvílík ást sem fyllti hjarta okkar frá okkar fyrstu augnablikum, þrátt fyrir að hún biði hinum meginn á hnettinum eftir okkur. Við vorum orðin mamma og pabbi  LOKSINS !

Við tók heilmikið skriffinnsku ferli og ennþá þurftum við að bíða í fimm mánuði í viðbót eftir að fá að sækja litlu stúlkuna okkar út til Indlands.  Að kvöldi 31 okt 2002 var ég á leið í saumaklúbb og keyrði framhjá  10-11 verslun og daginn þar á eftir ætluðum við að byrja í bólusettningar ferli sem við þurftum að ganga í gegnum áður en við myndum halda af stað í ferðalagið góða. Heyrði ég einhverja litla rödd inní mér sem sagði mér að skreppa inn og kaupa mér þungunarpróf til að vera nú alveg viss um að ég væri nú örugglega ekki ófrísk því ég væri að fara að sprauta í kroppinn minn allskyns bóluefnum . Morguninn eftir tók ég svo þungunarpróf með hálfum huga því það benti nákvæmlega ekkert til þess að ég væri ófrísk. En þrátt fyrir það birtust tvær sterkar línur í gluggana á þungunarprófunu. Þetta gat bara ekki verið að gerast ha ha ha ha ég trúði ekki mínum eigin augum.Ég horfði á prófið og grét og hló til skiptis. Við vorum himinlifandi af gleði en hrædd líka því við misstum síðast þegar ég varð ófrísk.Ég fór til læknis sem setti mig í sónar og allt leit vel út. Hann sagði strax að ég gæti ekki farið út að sækja stelpuna  og að við yrðum að ákveða annan ferðafélaga  og ég lét manninn minn ákveða það sjálfann og valdi hann bróðir sinn. Við héldum óléttunni leyndri eins lengi og hægt var ,bæði vegna hræðslu við fósturlát og hræðslu við að óléttan gæti haft áhrif á ættleiðinguna.  Undirbúningur  og hreiðurgerðinn fór á fullt. Við fluttum í stærra húsnæði og við innréttuðum fallegt barnaherbergi fyrir litlu prinsessuna okkar.  Jólin voru á næsta leiti og bundum við vonir við í upphafi að fá stelpuna heim fyrir jólin sem kom fljótt í ljós að það væri óraunsætt af okkur en fengum þó góðar fréttir á þorláskmessudag. Við vorum komin í gegnum fyrsta dómsstig  á Indlandi og voru það féttir sem fleyttu okkur í gegnum jólin með bros á vör þó það væri erfitt að vita að dóttur okkur úti. Annar erfiður kafli var þegar hún varð 1 árs. Við þráðum ekkert heitar enn að hafa hana hjá okkur á fyrsta afmælis degi sínum en það gekk heldur ekki eftir en fengum þó gleðitíðindi  þann daginn líka. Við vorum komin í gegnum annað dómstig á Indlandi og þá var ekkert annað eftir enn að bíða eftir að stelpan fengi vegabréf til að fá að koma heim.  Mikil gleðitíðindi…..HÚN VAR AÐ KOMA HEIM!

Núna fór allt á fullt. Það var pakkað nokkrum sinnum niður í töskur og tekið uppúr aftur. Það var pantað flug og hótel. Það var haft samband við leiðsögumann sem ætlaði að kynna bræðrunum fyrir landi og þjóð.  Ferðalagið átti að taka viku. Nokkra daga í að skoða og kynnast borginni og mannlífinu í Kalkútta áður en stoltur faðir ætlaði að sækja dóttur sína á barnaheimilið degi áður en hann myndi fljúga heim til Íslands.Ég mamman átti bara að bíða heima og reyna að njóta daganna eins og hægt var. Bræðurinir fóru með innkaupalista með sér því mikilvægt var að kaupa fallega minjagripi frá heimalandi dótturinnar. Kaupa Indverskan barnafatnað og skart ásamt fallegasta Sari úr gæðaefnum sem dóttirin mun geta borið stolt í framtíðinni. Allt er þetta mjög  mikilvægt að hafa í huga.

Ég átti skelfing bágt þegar ég kvaddi bræðurna. Þetta var heilmikil rússíbana ferð þessi vika sem ég beið heima. Ég fór í 19 vikna sónar  og fékk að vita að við værum að öllum líkindum að eignast aðra dóttur.Áætlaður fæðingardagur 3.júlí 2003. 7 febrúar 2003 lögðu bræðurnir af stað til Indlands.Þetta var áður en netsamskiptin voru eins öflug og þau eru í dag. Eiginmaðurinn þurfti að leita af netkaffihúsi til að senda mér tölvupóst en hann hringdi þó eftir lendingu á Indlandi og sagði mér plön daganna. Þeir lenntu á föstudegi og átti að fá að heimsækja barnaheimilið á þriðjudegi og fá að sjá stelpuna þá. Fram að því voru bara skoðunnarferðir alla daga. Ég myndi heyra í honum eftir að hann hefði fengið að sjá barnið. Ég beið heima og litla barnið í bumbunni dafnaði vel og mér leið nokkuð vel líkamlega. Biðin eftir þriðjudeginum var hræðilega erfið en svo kom símtalið langþráða.  HVERNIG ER HÚN ?? var það fyrsta sem ég sagði í símann. Hún er æðisleg og hún er hérna hjá mér uppá hótelherbergi var svarið sem ég fékk. Hún var s.s komin í fang föður síns. Honum var boðið að taka hana með sér strax vegna einhverra trúarhátíðar og auðvitað gat hann ekki sagt nei við því. Ég ætlaði aldrei að geta sleppt þeim úr símanum. Það var yndislegt að fá að heyra í henni eftir alla þessa bið. Símareikningurinn varð annsi dýr eftir þessa ferð en svo hverrar krónu virði.

Valentínusardaginn 14.febrúar 2003 var dagurinn sem þau áttu að koma heim.  Vegna sprengjuhótunnar á Heathrow flugvelli varð 7 klst seinkunn á heimkomunni og lenntu þau á Íslandi 30 mín eftir miðnætti þann 15.feb´03. Þegar bræðurinir gengu útum hliðið í Keflavík. Maðurinn minn fárveikur af flugvallaveiki og mágur minn klifjaður  farangri ásamt tollgæslumanni sem hélt á að mér fannst engu nema flísgallanum græna sem ég hafi keypt í st 80. Ég hljóp til þeirra og þarna í fanginu á honum ofan í gallanum góða lá litla dóttir mín sofandi. Tollgæslumaðurinn spurði mig „ert þú mamman?“  og rétti  mér hana. Hún var svo agnarsmá þó 13 mánaða  væri.  Ég eyddi fyrstu nóttunni í að hjúkra fárveikum eiginmanni mínum ásamt því að horfa á dauðuppgefna dóttur mína eftir þetta langa ferðalag.

 

Við eyddum næstu vikum og mánuðum í að kynnast og knúsast. Aðlöguninn og tengslamynduninn gekk vel. Dóttirin dafnaði og blómstraði eins og við foreldrarnir. Lífið var fullkomið og litla lífið í maga mínum óx og dafnaði líka. Þegar við vorum búin að vera þriggja manna fjölskylda í fimm mánuði bættist annað óskabarn í fjölskylduna okkar og allt í einu vorum við orðin fjögur. Litla systir fæddist eftir langa og erfiða fæðingu sem endaði í bráðakeisara. Stór og pattaraleg stúlka,algerlega fullkomin eins og stóra systir. Hún var mér þó meira framandi við fyrstu kynni en stóra systir.Það tók hana ekki nema 7 vikur að vera jafn stór og systir hennar var 13 mánaða. Það leið ekki langur tími þar til þær systur fóru í sömu fatastærð og  urðu þær hálfpartinn eins og tvíburarnir mínir þó 18 mánuðir skildu þær að í aldri. Þær hafa verið nánar og bestu vinkonur frá fyrstu stundu þó sláist nú alveg upp á vinskapinn eins og gengur og gerist milli systkina. Fannst okkur við ótrúlega rík og hamingjusöm  og sátt við lífið. Barnalánið var þó ekki  alveg búið að segja skilið við okkur því í desember 2005 fæddist okkur yndislegur drengur. Er ekki lífið dásamlegt ?

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

*

You may use these HTML tags and attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>