nýjustu greinarnar

Mjaðmagrindarverkir á meðgöngu

Á meðgöngu mýkjast öll liðbönd líkamans vegna þeirra hormónabreytinga sem eiga sér stað. Þessar breytingar valda auknum hreyfanleika í öllum liðum líkamans, einkum í mjaðmagrindinni sem gefur eftir til að opna fæðingarveginn. Auk þess verður breyting á líkamsstöðu og þungdaraukning á sér stað þegar líður á meðgönguna sem leiðir til aukins álags á blóðrás, liði og liðbönd líkamans.

Í rannsóknum ber flestum saman um að um helmingur barnshafandi kvenna finna fyrir bakverkjum og/eða mjaðmagrindarverkjum einhverntíman á meðgöngunni. Oft er eingöngu um eðlislega mjóbaksverki að ræða vegna vöðvaspennu og vöðvaþreytu, þegar það líður á meðgönguna. Sumar barnshafandi konur fá mjaðmagrindarverki við ákveðið álag vegna óstöðugleika í mjaðmagrindarliðnum. Verkirnir geta komið fram á hvaða tímabili sem er, en algengast er að þeir hefjist á fjórða til sjöunda mánuði meðgöngu.

Æskilegt er að leita til læknis eða sjúkraþjálfara sem fyrst til að fá greiningarmat ef mjaðmagrindarverkir eru daglegir og farnir að hafa áhrif á athafnir daglegs lífs. Til að greina á milli mjóbaks- og mjaðmagrindaverkja er stuðst við verkjasögu og skoðun á líkamsstöðu með hjálp ákveðinna prófa sem meta stöðu og hreyfanleika liðanna ásamt því ap framkalla verki í mjaðmagrindarliðum við tiltekið áreiti. Innar.

Einkenni

Mjaðmagrindarverkir geta komið frá einum, tveimur eða þremur liðum mjaðmagrindar. Verkirnir geta legið yfir spjaldliðum og/eða lífbeini. Þeir geta leitt upp í mjóbak, út í mjaðmir og/eða niður í nára en einnig niður innanverða eða aftanverð læri. Verkirnir geta komið vegna vöðvaspennu og vöðvabólgu umhverfis mjaðmagrindina, togunar á liðböndum og/eða vegna misgengis í mjaðmagrindarbeinum vegna mýktarinnar í liðböndunum. Kröftugir verkir geta framkallast vegna ójafnvægis á sveigjanleika liðanna, jafnvel ofhreyfanleika í einum lið og læsingar í öðrum. Mjaðmagrindarverkir aukast við bolvindur og ósamhverfar hreyfingar þar sem ójafnt álag kemur á mjaðmagrindina. Breytilegt er í gegnum meðgöngutímabilið hversu miklir verkirnir eru og hversu lengi þeir vara en þeir geta breyst frá degi til dags og eru jafnvel breytilegir yfir sólarhringinn. Oftast eru þeir álagstengdir og koma fram eftir álag. Mikilvægt er því að hlusta á líkaman sinn og taka tillit til verkjanna og meta hvort álagið hafi hugsanlega verið of mikið.

Orsakir

Ekki er fullvitað um orsakir og áhættuþætti mjaðmagrindarverkja. Flestum rannsóknum ber þó saman um hormónatengdir og lífaflfræðilegir þættir hafi samverkandi áhrif. Rannsóknir eru hins vegar misvísandi um tengsl áhættuþátta við mjaðmagrindarverki. Má  þar nefna aldur móður, þyngd/líkamsþyngdarstuðul móður, eðli starfs og/eða starfshlutfall, sögu um mjóbaksverki óháð meðgöngu, lengdarmismun ganglima, skekkju eða áverka á mjaðmagrind fyrir fyrstu meðgöngu og mjaðmagrindareinkenni á fyrri meðgöngu. Einnig má nefna almennan ofhreyfanleika, notkun getnaðarvarnarpillunnar, fjölda meðgangna, líkamlegt ástand og/eða virkni fyrir og meðan á meðgöngu stendur svo dæmi séu tekin. Vísbendingar eru um að mjaðmagrindareinkenni geti komið fram vegna eins eða fleira ofangreindra þátta en frekari rannsókn er þörf til að staðfesta þau tengsl.

Sjálfshjálp og líkamsstaða

Rétt líkamsbeiting og heppilegar vinnustöður draga úr einkennum þegar mjaðmagrindarverkir eru til staðar. Mikilvægt er því að gæta að góðri líkamsstöðu og líkamsbeitingu ásamt þjálfun.

 • Stattu jafnt í báðar fætur.
 • Ekki skjóta út mjöðminni eða láta allan þungan hvíla á öðrum fætinum
 • Rétta úr þér og gæta þess að fetta bakið ekki of mikið.
 • Forðast að yfirrétta hné eða læsa þeim.
 • Sittu með jafnan þunga á setbeinum.
 • Passa að sitja ekki með krosslagðar fætur.
 • Forðast skal lága og djúpa stóla.
 • Þegar þú sest eða stendur upp skaltu halla bolnum vel fram og nota stólarmana eða minnka álagið með því að styðja hendur á lærin.
 • Einnig er hægt að notast við púða til að styðja við bakið.
 • Gakktu gleiðspora og taktu lítil skref. Forðast að vagga eða haltra.
 • Taktu eitt þrep í einu, hallaðu þér og notaðu handriðið til stuðnings.
 • Í hvíld, þá er hliðarstaðan góð hvílsarstaða. Hafðu kodda eða sæng  á milli ganglimanna og undir kviðnum.
 • Reyndu að forðast að ryksuga og skúra.
 • Forðast að bera eða lyfta þungum hlutum.
 • Notast við stuðningsbelti, til að minnka álag við ákveðnar athafnir.
 • Kynlíf, sumar stöður geta valdið verkjum, forðist því baklegu. Prófið aðrar stöður t.d. á fjórum fótum eða  í hliðarlegu.

 

Eftir fæðingu

Tíðni mjaðmagrindarverkja eftir fæðingu er einnig mismunandi eftir rannsóknum. Almennt má gera ráð fyrir að flestar konur verði verkjalausar fljótlega eftir fæðingu. Nokkuð algengt er þó að þær hafi áframhaldandi verki við ákveðið álag og/eða við egglos eða blæðingar í talsverðan tíma eftir fæðingu. Verkirnir minnka eftir því sem lengra líður frá fæðingu en einstaka konur finna fyrir daglegum verkjum í eitt ár eða lengur. Erfitt er að spá í batahorfur en ójafnvægi í liðleika mjaðmagrindarliða er áhættuþáttur fyrir áframhaldandi mjaðmagrindarverki. Einnig virðist skipta máli hvaða og hversu margir mjaðmagrindarliðir eru undirlagðir. Ef verkir verða verulega slæmir á meðgöngu eða langvarandi eftir fæðingu getur það haft áhrif á lífsgæði konunnar sem kallar á breyttan lífsstíl. Aðlagast þarf breyttum aðstæðum bæði í starfi og heima t.d. við heimilisstörf, umönnun barna á heimili, kynlíf, þjálfun, gönguferðir, tómstundir, o.fl.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

*

You may use these HTML tags and attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>