nýjustu greinarnar

Í dag var staðfest á bráðamóttöku kvennadeildar mín versta martröð

Í dag var staðfest á bráðamóttöku kvennadeildar mín versta martröð, 10 vikna fóstrið mitt er látið. Sorg mín er ólýsanleg.

Ég og unnusti minn ákvaðum fyrr á árinu að reyna að eignast barn, ég hætti á getnaðarvarnarpillunni og 3 mánuðum síðar kom jákvætt þungunarpróf, ég pantaði tíma í snemmsónar sem var um það bil þegar ég átti að vera komin 8 vikur á leið þetta var 26. ágúst. Þar kom í ljós að fósturpokinn hafði fallið saman og ekkert líf hafði verið í 2 vikur. Þetta var svokallað dulið fósturlát því ég var með öll einkenni meðgöngu og ekkert hafði dregið úr því.

28. ágúst fór ég á bráðamóttöku kvennadeildar þar sem ég fékk lyf til að framkvæma úthreinsun heima en það gekk ekki nægilega vel, ég fór jú á blæðingar en þegar ég fór í skoðun viku seinna, 4. október, þá kom í ljós að fóstupokinn sat sem fastast. Ég þurfti því í útskröpun. Mér var ráðlagt að láta einn tíðarhring líða áður en við reyndum aftur. Ég var svosem ekkert að spá mikið í þetta fyrr en ég fer að fá þungunareinkenni aftur. Ég fór aldrei á blæðingar heldur varð ólétt. Ég varð mjög hissa og trúði þessu varla en hugsaði með mér, þetta er barnið sem ætlar að koma í heiminn.

Tíminn leið og ég fékk öll helstu einkenni, fór í skoðun og var þá komin 5 vikur en ekki hægt að staðfesta þungun þar sem ekki sást hjartsláttur, svo ég fór aftur 2 vikum seinna eða 1. nóvember og var þá með staðfesta meðgöngu 7 vikur og 2 daga, sterkur hjartsláttur og ég og minn maður á bleiku skýi. En við vorum ekki lengi á bleiku skýi, því þegar ég var komin 9 vikur og 2 daga eða 15. nóvember þá breyttist eitthvað hjá mér, fékk útferð með slæmri lykt og svo daginn eftir kom appelsínugulur litur í dömuinnleggið hjá mér. Á afmælisdaginn minn blæddi lítillega svo ég hringdi niður á spítala. Þar var mér sagt að ef ég væri ekki með verki þá ætti ég að bíða róleg, þar sem mæðraskoðun yrði miðvikudaginn 20. nóvember. Mánudagurinn leið og það blæddi mun meira en þó án verkja. Ég setti mig svo í samband við ljósmóðir sem sér um mæðravernd á heilsugæslunni minni og hún ráðlagði mér að panta tíma hjá bráðamóttökunni. Ég fékk tíma 20. nóvember kl. 9.30 en kvöldið áður og um nóttina fann ég fyrir þreytuverkjum í móðurlífinu og blæðingar jukust og ég fór reglulega á salernið þar sem alltaf voru einhverjar blóðlifrar. Um kl 5. 30 um morguninn fann ég að það rann eitthvað mikið blóð og hljóp inn á klósett þar sem ég rétt náði áður en það fossaði útum allt. Það leyndi sér ekki að það var eitthvað stórt sem kom og blæðingar eftir því. Guð minn góður hvað ég var ekki að trúa þessu. Hver er tilgangurinn að missa aftur. Á erfitt með að skilja þetta en held að ég reyni ekki í bráð, legg það ekki á mig strax, þarf að byggja mig upp áður en ég reyni aftur.

En það veit ég að mig langar í annað barn, en hvort ég þori er annað mál.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

*

You may use these HTML tags and attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>