nýjustu greinarnar

Fósturmissir

Ég þarf einhvernveginn að létta á mér og mér finnst þetta vera leiðin til þess. Innan í mér eru svo margar og blendnar tilfinningar sem mig langar að koma frá mér og hef ekki þann kjark til að opna mig fyrir hverjum sem er. Þetta byrjaði með mínum endalausum áhyggjum og var búin að bíða þess allan desembermánuðinn að byrja á blæðingum en ekkert gerðist… Ég varð eiginlega svolítið hrædd, hrædd um að eitthvað væri að og ólétta kom alveg til greina. Ég varð það lokuð að ég vildi helst ekkert tjá mig um það hvað ég væri orðin kvíðin inn við beinið. Ég var búin að hringja á vaktina og segja mínar áhyggjur og hvort það væri eitthvað til að vera með áhyggjur af. Þær töldu þetta ekkert til að hafa áhyggjur af og ég auðvitað í sakleysi mínu lauk ég þessu samtali eins og ekkert væri.

23. desember byrjuðu svo blæðingarnar og mér til mikillar ánægju. Þær stóðu alveg fram að áramótum og taldi ég það vera eðlilegt, því ég hvort eð er byrjaði svo seint og leyfði mér hreinlega að halda að þetta ætti að vera svona. Áramótin liðu og nýtt ár hófst.

Fimmtudaginn 4. janúar stóð mér ekki á sama, ég var búin að vera á blæðingum í næstum tvær vikur og með þessum blæðingum voru farnar að koma blóðkökklar. Það skelfdi mig. Ég leitaði strax ráða hjá hjúkrunarfræðingi og enn og aftur var mér svo sem sagt að hafa ekki neinar óþarfa áhyggjur. Daginn eftir voru þráhyggjurnar orðnar svo miklar og ég gat ekki bara setið og beðið að fá svar á himnum svo ég hringdi í heimilislækninn minn í símatíma. Hún ráðlagði mér að kaupa þungunarpróf, sem ég gerði. Hún tók það samt fram að þetta þyrfti ekkert að vera þungun, heldur gæti margt annað verið að sem einfaldlega þyrfti ítarlegri rannsókn.

Ég var með miklar áhyggjur hvort ég ætti að taka þungungarprófið, ég var eiginlega rosalega hrædd við þetta litla stykki eins og það ætlaði að gera mér eitthvað. Ég var svo hrædd um að vera ólétt og gat ekki horfst í augu við sannleikann. Allan daginn var ég að íhuga “á ég eða á ég ekki” þessi orð komu stöðugt fram en það var alltaf einhver hugsun sem sagði mér hreinlega að sleppa þessu því þetta væru bara eðlilegar blæðingar. Seinni part dags hafði ég það af og tók þungunarprófið eftir þessa miklu hræðslu sem hvíldi á mér. Þungunarprófið var jákvætt. Ég fékk rosalegt sjokk ég gat hreinlega ekki sannfært mig um að þetta væru staðreyndirnar og ég þyrfti hreinlega að taka þeim. Ég gekk fram og aftur um gólf og vissi ekkert hvað ég ætti að gera og hvert ég ætti að leita.. Ég varð ráðþrota.

Ég hugsaði með mér kannski get ég leitað til hjúkrunarfræðings á Læknavaktinni í Kópavogi. Ég hringdi og sagði mína sögu alveg frá því í byrjun desember, konan virtist lítið skilja mig og sagði mér einungis að ég yrði að leita til Kvennadeildarinnar á Landsspítalanum. Ég hringdi þá á Landsspítalann og það svaraði kona, ég bað um að fá að tala við ljósmóður eða hjúkrunarfræðing ef mögulegt væri. Hún spurði hvað ég væri gengin langt og hvað væri vandamálið. Ég fraus ég gat engu svarað því ég hringdi með þeim tilgangi að ég væri ráðþrota og vissi ekkert hvernig staðan væri. Það eina sem ég fékk frá þessari konu var bara ókurteisi og ég hreinlega leyfði þessari konu að traðka á mér. Mér leið hræðilega og var gráti nærri.

Ég hringdi þess vegna aftur upp á Læknavaktina og sagði að ég væri búin að reyna að fá samband en konan þar hafði bara sýnt mér ókurteisi og litla sem enga virðingu. Ég fékk engin svör og varð enn vonsviknari. Ég ákvað að gefast ekki upp eftir þeirri hjálp sem ég þarfnaðist, ég hafði samband við Heilsugæsluna á Sólvangi. Þar fékk ég að tala við alveg yndislegan hjúkrunarfræðing, hún var sú eina þann dag sem sýndi mér þann skilning sem ég þurfti algjörlega á að halda. Hún talaði við mig um allt sem mig vantaði að vita og eins og allar benti hún mér á að tala við Kvennadeildina en með líka allt öðru viðhorfi heldur en hinar konurnar sem ég var búin að reyna að leita ráða hjá. Ég sagði að ég hreinlega væri búin að gefast upp á Landsspítalanum. Ég gat ekki hugsað mér að hringja þangað aftur og sagði henni að ég væri bara búin að fá skítakast frá þessari konu sem svaraði alltaf á spítalanum. Þessi yndæla hjúkrunarkona sagði mér að vera ákveðin við hana og segja að ég þyrfti nauðsynlega á hjálp. Ég þakkaði þessari konu kærlega fyrir þetta innilega spjall okkar og þann skilning sem hún veitti mér og varð henni mjög þakklát.

Ég jafnaði mig aðeins áður en hóf næsta símtal sem var við þessa illskeyttu konu sem svaraði alltaf með sinni ókurteisi. Ég hringdi nú ákveðin og sagðist einfaldlega þurfa að tala við einhvern og gæti ekki beðið, ég vissi heldur ekki hvernig staðan væri og vissi heldur ekki hvað ég væri gengin langt. Hún hikaði og ákvað að gefa mér samband. Ég var svo glöð yfir ákveðninni minni. Ég fékk samband við hjúkrunarkonu og sagði henni alla sólarsöguna. Hún sagði við mig að fara á Læknavaktina á Kópavogi og svo að koma til þeirra. Eftir að ég lauk samtalinu varð ég fyrir vonbrigðum en lét það ekki á mig fá og ákvað að hlýða þeirri skiptun sem hún setti mér. Ég hugsaði svo “kannski er það rétt, kannski verð ég að byrjað einhversstaðar og það er Læknavaktin”. Ég fór þangað sama kvöld. Ég fékk þungunina staðfesta en þessi mikla blæðing gæti hugsanlega leitt að fósturláti og ætti ég alveg að undirbúa mig fyrir það að þetta yrði ekki að neinu. Læknirinn sagði mér bara að ég mætti mæta hvenær sem er á Kvennadeildina og ætti aðeins að hringja á undan mér bara ef verkirnir myndu versna.

Ég fór heim og ákvað að vera ekkert að pæla í þessu, en það var samt svo erfitt að leiða þetta hjá sér en ég leit á björtu hliðarnar. Ég hugsaði með mér að þetta eru örugglega bara venjulegar blæðingar. Ég hef heyrt að sumar konur eru alveg á blæðingum á meðgöngunni og þykir það víst alveg eðlilegur hlutur og verður alltaf æ algengara. Ég var alltaf með þetta viðhorf að allt væri í lagi en vildi líka helst undirbúa mig fyrir stórt skref sem yrðu þá slæmar fréttir. Ég var samt svo hrædd við hvort tveggja, bæði þungun og fósturlát.

Laugardaginn 6. janúar vaknaði ég með þessa gríðarlegu verki og hafði ég líka verið með væga samdráttarverki yfir alla nóttina. Ég hringdi strax uppeftir og fékk samband við deildarlækni. Ég sagði enn einu sinni söguna alla og bað hann mig að koma eins fljótt og ég mögulega gæti á fósturgreiningadeild Landspítalans.

Ég var komin á Kvennadeildina um kl 16:00. Þegar ég var komin var líka nokkur bið, á meðan biðinni stóð steymdu áhyggjurnar í gegnum allan líkamann. Eftir stutta bið kom þessi yndislegi maður sem ég hafði talað við fyrr um daginn. Hann vísaði mér í herbergi sem snemmsónar fara fram. Ég kannaðist við mig strax í þessu herbergi. Þetta var herbergið sem ég fór í þegar ég var ólétt af dóttur minni og þar sem við fengum okkar gleðifréttir. Hann vildi strax fá að skoða mig og ganga úr skugga um hvað væri að og afhverju þessi blæðing átti sér stað. Hann skoðaði mig og fór í gegnum þetta venjulega ómskoðunarferli. Í þessari skoðun var niðurstaðan sú að ég væri búin að missa fóstrið. Það eina sem var til staðar voru einungis hormón og það sem þarf að fjarlægja eftir svona fósturlát. Hann vildi samt sem áður fá staðfestingu frá öðrum lækni til að fullvissa um að fósturlát hafi átt sér stað. Svo var raunin, þetta var fósturlát.

Ég varð fyrir mjög miklum vonbrigðum, ég fékk risastóran hnút í magann og mér fannst eins og mér væri hafnað og að þetta væri stærsta höfnun sem hægt væri að fá. Þessi yndislegi læknir reyndi að hughreysta mig og sagði mér einfaldlega að “líkaminn okkar er svo næmur fyrir því ef það er eitthvað að fóstrinu þá hafnar líkaminn því og gerir hann það yfirleitt á byrjun meðgöngu.” Mér fannst þetta eiginlega ekkert hughreystandi í byrjun en hugsaði svo að þetta er örugglega svona, annað gæti það ekki verið. Ég hafði þetta alltaf fast í huga að svona væri þetta, líkaminn velur og hafnar. Læknirinn bauð mér tvenna kosti sem voru að fara í þessa hefðbundnu skröpunaraðgerð eða þá að fá pillu sem ættu einungis að opna leghálsinn og hreinsunin myndi gerast að sjálfu sér. Ég átti gríðarlega erfitt með val, ég einhverra hluta vegna kveið svo mikið fyrir þessari litlu aðgerð að ég einfaldlega vildi prófa hinn kostinn. Ég fékk þessar pillur og svo var farið heim. Ég var svo ósátt á fá svona fréttir og spurði mig í sífellu “afhverju kom þetta fyrir mig.” Mér fannst þetta allt svo erfitt, ég vildi einhvern sem ég gæti nú leitað huggun hjá, ég vildi kærastann minn og ég vildi að hann myndi standa með mér í þessu. Sú var ekki raunin honum fannst ég vera að væla yfir engu. Ég vildi að hann hafi opnað sig og sagt að þetta væri honum erfitt. Ég vildi fá hann því hann var að ganga í gegnum það sama og ég.
Við fórum svo heim af sjúkrahúsinu. Það leið á kvöld og ég var orðin slæm af verkjum og einnig mikil blæðing. Ég átti að setja töflurnar upp í leghálsinn um kvöldið. Ég glataði einni töflunni niður í niðurfallið, ég varð svo hrædd um að ég hefði klúðrað einhverju. Ég hringdi strax á Kvennadeildina og lét vita af veru minni fyrr um daginn og sagði í afsökunartón að ég hafði glatað pillunni. Ég bað kærastann minn að bruna eftir henni. Ég beið og hneig niður af sársauka. Þetta var það vondur sársauki að mér fannst hann jafnvel verri heldur en hríðir, ég fékk stingi upp í bak og niður lappirnar. Þetta kvöld fékk ég ekki að taka þessar pillur því blæðingin virtist vera of mikil til að sýna einhvern árangur. Ég varð allt í einu mjög viðkvæm á þessari stundu mér fannst eins og heimurinn væri að hrynja.

Daginn eftir tók ég svo pillurnar því blæðingin hafði minnkað töluvert en var þó alltaf af og til með stingandi verki. Ég var líka mjög hrædd við að taka pillurnar því með því átti að fylgja talsverðar aukaverkanir og ég varð hrædd við þessar aukaverkanir. Ég þoldi einfaldlega ekki meira sársauka. Ég tók þær á endanum, ég fann ekki fyrir miklum aukaverkunum og blæðingin eða hreinsunin var lítil sem ekki nein. Ég beið þess að hafa áhyggjur yfir þessu fram að miðvikudag því þann dag átti ég að koma í endurkomu.

Dagarnir fram að því voru upp og niður. Ég náði að hughreysta mig yfir daginn að ég kæmist yfir þetta og ég gæti haldið áfram, svo voru kvöldið töluvert verri. Ég brotnaði í sífellu niður og minnsta þurfti til þess að fara að gráta. Mér fannst ég fá enga huggun, því mig sárvantaði hana. Ég vildi fá kærastann minn til að styðja mig og hughreysta. Ég þarfnaðis hans meira en nokkuð annað akkurat á svona stundu. Dagarnir liðu svona fram að miðvikudag. Ég mætti á kvennadeildina kl. 09:00 um morguninn. Ég beið og beið. Mér fannst einungis eins og tíminn stæði í stað. Tíminn leið og ég beið í hálftíma og klukkutíma. Ég var fastandi og var hungrið alveg að fara með mig. Ég hugsaði að ég hreinlega gæti ekki beðið lengur, verkirnir komu upp stöðugt og var erfitt að byrgja þá innan í sér. Ég komst samt loks að eftir um 1 ½ klst bið. Ég fór aftur á stofuna þar sem ég hafði fengið þær fréttir að ekkert barn hafi orðið að veruleika. Mér fannst pínu óþæginlegt að koma þarna inn, mér fannst bara vera kuldi þar. Ég fékk samt sem áður frábæra konu sem aðstoðaði mig. Ég fékk líka þær fréttir að ég þyrfti á skröpunaraðgerðinni að halda, hreinsunin hafði ekki þau fullkomnu virkni svo aðgerðin var besta leiðin til að ná öllu.

Þessi yndislega kona fór með mig í gegnum pappírana og skilmálana sem fylgja svona aðgerð. Þau þurftu mitt samþykki og eins svara spurningum sem fylgja. Hún fór með mér í gegnum ferlið og ég varð einhvern veginn hrædd við þessa aðgerð. Ég varð hrædd um að eitthvað myndi koma fyrir mig þrátt fyrir svona litla aðgerð, kannski var ég bara hrædd um að ég gæti aldrei aftur átt börn. Ég var strax lögð inn. Ég fékk rúm og sjúkrahúsföt. Ég lagðist upp í rúmið eftir fataskiptin og hugsaði um þetta litla barn. Mér leið á þessari stundu mjög illa og hefði viljað hafa kærastann minn hjá mér. Það var smá bið í aðgerðina, ég fékk lyf áður en ég fór upp á skurðdeildina.

Eftir um það bil klukkustund eða svo var mér rúllað upp á skurðdeildina. Mér fannst þessi skurðdeild eitthvað svo kuldaleg, allt dauðsótthreinsað. Ég beið í smá stund eftir að geta komist að. Þegar komið var inn á skurðstofuna þar sem aðgerðin átti að fara fram var ég lög svo í annað rúm. Blóðþrýstingurinn var mældur og svo var það sprautan. Ég fékk nál í æð því ég fékk svæfinguna í æð. Svæfingalæknirninn var með stóra sprautu af svæfingalyfi, ég varð allt í einu skelfinu lostin, mér varð hálf óglatt við að sjá þetta mikla magn ég hugsaði “hvað á að svæfa mann til eilífðar með þessu”.  Þegar læknirninn sprautaði svæfingunni leið mér illa, þetta var svo yfirþyrmandi vond tilfinning. Mér varð svo kalt og ég fann hvað það streymdi mikill kuldi um alla hendina. Síðan datt ég út. Ég vaknaði svo hálftíma síðar inn á vöknun. Mér fannst ennþá eins og ég væri að berjast fyrir því að sofa fyrir aðgerðina. Ég eiginlega skildi ekkert í fyrstu fyrr en það kom hjúkrunarkona og sagði að aðgerðin væri búin.  Um leið og ég fór að ranka við mér fékk ég þessa svakalegu verki, og mér varð skítkalt. Fljótlega fór ég aftur niður á stofuna um kl 13:00. Ég fékk verkjatöflur og svo var sagt við mig að reyna að sofa verkina úr mér. Mér fannst ég ekki geta sofnað, ég átti í erfiðleikum með það.

Ég hugsaði stögugt til stelpuna mína og kærastann, mig langaði að fá þau til mín til að knúsa. Ég var endalaust með hugsunina annarsstaðar, en var svo þreytt og langaði að sofna. Ég samt lognaðist útaf á endanum. Ég vaknaði svo ekki fyrr en kl. 16:30. Mér fannst ég vera búin að sofa svo stutt og svo laust. Eftir að ég vaknaði vildi ég strax fá að hringja í kærastann minn. Mér fannst það samt svo erfitt því ef ég myndi lýsa því nákvæmlega hvernig mér liði þá myndi hann ekki skilja það.
Ég hringdi svo til að láta vita að ég væri búin. Ég vissi samt voðalega lítið þar sem enginn hafði komið til að setja mér hvernig aðgerðin hafi gengið. Eftir skamma stund kom kona til mín, það var konan sem gerði aðgerðina. Ég fékk þá loks að vita að allt hafi gengið eins og í sögu, ég mætti hins vegar fylgjast með mér upp á sýkingar að gera. Ég fékk svo lyf og var svo útskrifuð eftir nokkur skilyrði sem ég varð að fylgja svo sýkingarhættan yrði ekki eins mikil. Þau skilyrði sem ég fékk voru öll sett fyrir 2-3 vikur, það voru að nota enga túrtappa á meðan blæðingum stóð, engar íþróttir né sund og svo ekkert kynlíf. Þegar ég heyrði “ekkert kynlíf” þá óttaðist ég, ég vissi að þetta væri eitthvað sem kærastinn minn myndi hreinlega ekki skilja og ætti eftir að fylgja þessu vesen.

Ég varð kvíðin við að segja honum þessar fréttir einungis bara útaf skilningsleysi. Nú var ég útskrifuð af spítalanum. Ég klæddi mig og beið svo í biðstofunni eftir kærastanum mínum. Ég fann þegar ég var búin að labba að mér fannst eitthvað vanta, eitthvað svona innan í mér. Mér leið eiginlega eins og það hafi allt verið rifið úr mér og langaði helst ekki að trúa að þetta væri að koma fyrir mig. Ég spurði sjálfa mig endalaust “afhverju kom þetta fyrir mig”, það var svo erfitt að hunsa þessa hugsun því þessi hugsun barðist fyrir að fá að vera þarna. Allan þennan sama dag leið mér alveg svakalega illa, mér fannst eins og hluti af mér hefði verið tekinn þó svo að ég hafi ekkert beint verið farin að finna fyrir neinni móðurtilfinningu eða “óléttutilfinningu” eða einkennum þá samt sem áður tók þetta á eins og hver annar hlutur.

Mér fannst kærastinn minn aldrei skilja mig líka, hann var alltaf að segja “þetta er ekkert barn”, en þetta var jú barn, bara það óþroskað ennþá og kallast því fóstur. Hann sagði líka að “við eignumst bara annað barn seinna” en það er ekki þannig að það kemur annað í staðinn… missirinn er alltaf sá sama þó svo að það færist ný hamingja í lífið. Ég ætla samt eftir bestu getu að reyna að takast á við þetta, lífið mitt er rétt að byrja. Ég ætla einungis að lifa með þessu!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

*

You may use these HTML tags and attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>