nýjustu greinarnar

Klumbufætur

Hérna ætla ég að segja frá hvernig gengur með að laga fallegu fæturna hennar dóttur minnar.

Klumbufætur eru snúnir fætur frá ökkla. Góðar greinar hægt að finna á netinu undir leitarorðinu “klumbufætur” og einnig “club feet”.

Í 20. vikna sónarnum var okkur Herði sagt að krílið okkar væri með svolítið skakka fætur. Ég sagði strax að það væri ekkert skrítið því að ég hafi verið með skakkar ristar þegar ég fæddist og þurfti að fara í gips þegar ég var lítil til að laga það.

Við vorum beðin um að koma aftur daginn eftir til þess að fá þetta staðfest af sérfræðingi.

Daginn eftir þá fóru ég og mamma niðureftir aftur og sérfræðingurinn segir okkur að krílið sé með klumbufætur. Ég fékk algjört sjokk og ímyndaði mér að ég væri að fara að eignast barn sem væri mikið fatlað, þar sem ég hafði ekki heyrt neitt almennilega um þetta áður.
Ég var rétt svo með snúnar ristar en þetta er alveg snúið frá ökkla!

Ég vissi ekki alveg hvernig ég átti að taka þessu þannig að ég ákvað bara að fara heim og skoða um þetta á netinu. Þar sá ég síðu hjá konu sem á strák með klumbufætur og var í gipsmeðferð og þannig. Ég forvitnaðist um þetta á netinu og sendi einnig konunni póst og fékk lykilorð á síðuna hennar svo að ég gæti fylgst með. Þegar ég sá framfarirnar hjá stráknum hennar og allt það þá leið mér strax betur og kvíðinn fór að mestu leiti.

Okkur var bent á að fara og hitta Sigurveigu bæklunarlækni sem sér um þessi fáu börn sem fæðast með klumbufætur. Við fórum til hennar stuttu seinna og hún kynnti málið fyrir okkur. Hún sagði okkur hvernig þetta er lagað og þessháttar. Það er gert með gipsmeðferð, spelkum og stundum aðgerðum. Að hitta Sigurveigu lét kvíða minn hverfa. Hún er svo yndisleg að það er ekki annað hægt en að treysta henni og trúa. :)

Það eina sem ég hafði áhyggjur af í framhaldi af þessu var það ef einhver annar “galli” væri til staðar líka hjá stelpunni minni. Dreymdi stundum drauma um að hún kæmi í fangið á mér með klofna vör eða eitthvað þessháttar… þessvegna fór ég í auka sónar og lét skoða þetta allt saman mjög vel svo að hægt væri að undirbúa mig ef eitthvað meira væri að, sem var svo ekki. Við fórum einnig í hjartaómun ef það ské kynni að eitthvað væri að hjartanu.

Þann 14. desember 2007 kom litla prinsessan í heiminn með sínar skökku fætur. Og viti menn ég hef bara aldrei séð jafn fallega fætur á minni ævi. :)

Ég fékk í fangið gullfallega stúlku með gullfallega fætur!

Hérna eru litlu fallegu fæturnir hennar Bryndísar Evu. :)

Þann 21.desember þegar Bryndís var aðeins 1 viku gömul var hún sett í fyrsta gipsið. Ég og Hörður fórum með hana á spítalann. Hann Yngvi sá um gipsið fyrstu 3 skiptin þar til hún Sigurveig kom úr fríi og tók við. Bryndís var ekki sátt! Orgaði allan tímann meðan var verið að setja á hana gipsið svo að ég þurfti að halda á henni á meðan :P


Hérna er hún búin að fara í eitt gips

Þann 27. desember fórum við í gipsskiptingu og var Bryndís örlítið rólegri í það skiptið :P Ég og Hörður voru með henni.

Búin í gipsi númer 2.

Þann 3. janúar fórum við enn og aftur í skiptingu. Ég og mamma vorum með Bryndísi í þetta skiptið. Skottan vildi alls ekki standa í þessu veseni svo að hún var gipsuð í fanginu á mér ;) En þvílíkur munur á litlu fallegu fótunum!


Hérna er hún búin í 3 gipsum
.

Þann 10. janúar fórum við mamma enn og aftur með snúlluna upp á spítala í skiptingu. Þann dag tók Sigurveig við. Það gekk bara vel. Skottan verður duglegri með hverju skiptinu. ;)


4 gipsið farið af
.

Þann 17. janúar fór ég með Bryndísi aftur á spítalann í enn eina skiptinguna. Hún var bara rosa dugleg! Stóð sig sko eins og hetja. :)

5 gipsið farið af
.

Þann 25. janúar fóru ég og mamma upp á spítala með Bryndísi. Sigurveig sagði að það þyrfti að gera hásinaaðgerð! Úff, þá varð ég hrædd… Var sagt að koma á mánudagsmorguninn með hana í aðgerðina. Svo var hún sett í létt gips þar sem það var svo stuttur tími í aðgerðina. Stress, stress, stress var á mér yfir helgina……

6. gipsið farið af. Hérna er hún á leiðinni í aðgerðina
.

Stóri dagurinn var 28. janúar. Við mæðgur vöknuðum um 6 um morguninn og fengum okkur að drekka og tókum gipsið af og svona. Svo setti mamma deyfiplástur á fæturna á Bryndísi og svo brunuðum við upp á spítala. Ég var taugahrúga. Þegar við komum fórum við með hana inn á stofu og klæddum hana í spítalaföt og svona. Svo var henni gefinn verkjastillandi stíll. Þegar var komið að sækja hana fór ég að háskæla. En fékk að fara með henni alla leið inn á skurðstofu og var þá send fram. Og þá grét ég meira. Þegar ég kom fram var Hörður kominn líka. Svo sátu ég, mamma og Hörður frammi og biðum eftir að fá prinsessuna aftur. Innan við hálftíma seinna kemur Sigurveig með skvísuna fram í fanginu steinsofandi. :D Hún hafði verði svo rosalega dugleg. :) Fékk sykurvatn til að róa sig og svona. Hehe. :P Fyrsta nammið. :D

Semsagt búið að klippa á hásinina og sett aftur í gips sem hún átti að vera með í 3 vikur á meðan hásinin myndi gróa.

Svo var bara haldið heim á leið með verkjastillandi stíla í nesti.


Bryndís var svo dugleg! Brosti bara og skellihló. :)


Verið að keyra hana á skurðstofuna. Ég að fara að fylgja henni inn á stofuna.

3 og hálfri viku eftir aðgerðina, 21.febúar förum við mæðgur ásamt ömmu að hitta Sigurveigu. Og þvílíkt fallegir fætur komu í ljós þegar gipsið var tekið af. :)


Frábær árangur. Eru soldið útskeifir en þannig á það að vera. :)

Sigurveig ákvað að Bryndís færi ekki aftur í gips heldur bara spelkur. Spelkurnar voru eins og snjóbretti. Semsagt skór sem hún er sett í og festir á planka…


Snjóbrettastelpan. ;) Byrjar snemma á bretti. :p

Sigurveig sendi okkur upp í Stoð að hitta Þóri. Hann lét okkur fá skó og spelkur. Bryndís grét svo rosalega þegar hún var í þessum spelkum svo að Sigurveig gaf okkur leyfi til að vera ekki í þeim yfir eina helgi og sjá hvernig hún væri þá. Svo mánudaginn 3. mars fórum við að hitta hana aftur og hún ákvað að biðja hann Þóri að sérsmíða fyrir hana spelkur sem eru öðruvísi. Í von um að hún geti verið í þeim án þess að meiða sig svona. Þannig að hún var spelku laus í viku og leið mun betur.

Hann Þórir varð svo lasinn að það tafðist að fá nýju spelkurnar svo að Sigurveig ákvað 7. mars að gipsa Bryndísi yfir helgina svo að fæturnir myndu ekki skekkjast aftur.

11.mars voru spelkurnar tilbúnar. Bryndís Eva var bara voða sátt með þær! Enda voða svipaðar gipsinu. :)

Skvísan mín í nýju spelkunum. :)

Þessum spelkum átti hún svo að vera í í 3 vikur og svo vildi Sigurveig reyna að setja Bryndísi í hinar spelkurnar aftur.

3 vikum síðar fórum við aftur til Sigurveigar og við prófuðum að setja Bryndísi aftur í gömlu spelkurnar. Við löguðum stillingarnar og færðum í 50 gráður útskeift í staðinn fyrir 70 gráður útskeift. Svo með tímanum jók ég gráðurnar. Svo var bara notaður góður tími til að aðlaga hana. Var í spelkunum alltaf í stuttann tíma í einu og þá gekk þetta bara glimrandi vel! Skottan sættist við brettið sitt. ;)

Í byrjun júní var loksins kominn sá tími að Bryndís Eva væri bara í spelkunum á nóttunni. Þvílíkur munur var það! Núna þurfti ég ekki að vesenast með þessar spelkur hvert sem við fórum. :) Og svona átti skottan að vera í þó nokkurn tíma.

Bryndís Eva var í spelkum á nóttunni þar til í október 2009, eða 22 mánaða. Þá var hún farin að taka sig úr spelkunum sjálf á nóttunni. Þá ákvað Sigurveig að það væri kominn tími til að hætta. Enda voru fæturnir á henni í mjög fínu standi.

Bryndís er afskaplega dugleg stelpa og hefur ekkert látið klumbufæturnar hafa áhrif á sig.
Hún hoppar um og hleypur eins og hvert annað barn.

Í dag þá sést ekki að fæturnir voru svona við fæðingu. Það eina sem sést eru smá krumpur þar sem skinnið þarf bara tíma til að teygjast. Og svo ef mjög vel er skoðað þá sjást pínulítil ör síðan úr aðgerðinni.

Vonandi kemur þessi reynslusaga að góðum notum. Ekki hika við að hafa samband ef þið hafið einhverjar spurningar.

Fallega litla hetjan mín. :*

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

*

You may use these HTML tags and attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>