nýjustu greinarnar

Saga Árnýjar

Þriðjudagur, 29 Júlí 2008 23:52
Ég og maki minn byrjuðum að reyna að eignast barn í janúar 2006, en ég hætti á pillunni í desember 2005. Ég bjóst nú við því að þetta myndi taka einhverja mánuði en ég varð strax ólétt á öðrum tíðarhring og urðum við bæði mjög hissa þar sem að við vorum ekkert búin að vera að pæla í neinum dagsetningum eða þannig. Ég fékk tíma hjá kvensjúkdómalækni strax og ég komst að því að ég væri ólétt og var þá komin 5 vikur rúmlega en ekkert sást í sónarnum en læknirinn vildi að ég kæmi aftu 2 vikum seinna og þá ætti að sjást fóstur og hjartsláttur.

Ég fór heim voðalega ringluð og engan vegin að trúa því að ég væri ólétt. Ég byrjaði að fá skrítna verki og fór að verða svolítið hrædd, en allir sögðu að þetta væru eðlilegir vaxtaverkir og ég hugsaði ekkert meira um þá. Svo viku seinna byrjaði að blæða hjá mér og verkirnir orðnir ansi slæmir. Ég fór upp á kvennadeild og þau sögðu að það væru líkur á því að þetta væri utanlegsfóstur eða þá að ég væri komin styttra en ég héldi og að þess vegna sæist ekki neitt í leginu.

 

Þá tók við að koma í blóðprufur og sónar annan hvern dag til að athuga hvort að þungunarhormónið væri að hækka eðlilega . Hormónið hækkaði og lækkaði til skiptis þannig að læknarnir gátu ekki gefið okkur nein almennileg svör. Þetta endaði þó þannig að ég var lögð inn á föstudaginn langa og læknarnir komust að þeirri niðurstöðu að þetta væri utanlegsfóstur en voru eitthvað tregir við að gera aðgerð. Ég var látin fasta til að ég gæti farið í aðgerð en alltaf hættu þeir við. Svona gekk þetta í 3 daga og svo var ég bara allt í einu send heim og sagt að hvíla mig og koma aftur í blóðprufu eftir 2 daga. Þá var hormónið búið að lækka það mikið að greinilegt var að fóstrið hafði skilað sér sjálft sem var auðvitað góðar fréttir því þá þurfti ég ekki fara í aðgerð.

Ég var í eftirliti í nokkra daga þangað til að allt virtist vera orðið eðlilegt aftur.

Ekkert gerðist á næstu mánuðum þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir fyrr en að ég var greind með PCOS (fjölblöðru eggjastokkaheilkenni) og pantaði mér tíma hjá Tönju á Art Medica í september 2006 . Maðurinn minn fór í sæðisrannsókn sem kom vel út og fór ég í blóðprufur þar sem að kom líka í ljós að skjaldkirtillinn minn var “hálfvanvirkur” eins og Tanja orðaði það og blóðsykurinn hár. Ég byrjaði því á skjaldkirtilslyfjum og Glucophage sem er sykursýkislyf sem að margar konur með PCOS hafa tekið með góðum árangri. Hjá mörgum verður tíðarhringurinn reglulegri en margar PCOS konur eru með óreglulega tíðarhringi oftast vegna þess að egglos verður ekki. Ég hafði ekki egglos og var með mjög óreglulegnn tíðarhring, en eftir að ég byrjaði að taka lyfin varð hringurinn reglulegri. Tanja lét mig fá frjósemislyfið Pergotime sem átti að hjálpa til við egglosið en fyrsti skammturinn virkaði ekki og ekki varð neitt egglos. Þá stækkaði Tanja skammtinn minn og í það skipti fékk ég loksins egglos en varð því miður ekki ólétt í það skiptið.

Þá tókum við okkur smá pásu fram yfir áramótin og svo fór ég til Guðmundar hjá Art Medica sem vildi fá mig strax í kviðholsspeglun vegna sögu minnar um utanlegsfóstur og fengum við tíma í lok janúar. Speglunin kom vel út og Guðmundur sá ekkert að og þá byrjuðum við að taka pergotime aftur, en ekkert gerðist. Allt í einu fékk ég jákvætt óléttupróf þegar ég átti sko ekki von á því, en fljótt fór ég að finna fyrir kunnulegum verkjum og það byrjaði að blæða. Ég var búin að fara í blóðprufu hjá Guðmundi hjá Art þar sem að gildin voru frekar lág og átti ég að koma viku seinna í blóðprufu aftur. Ég fór upp á kvennadeild vegna verkjanna og ekkert sást í leginu nema þykknun á slímhúðinni og fór ég í enn eina blóðprufuna.

Svona gekk þetta í nokkra daga, blóðprufa og sónar annan hvern dag. Á föstudagsnóttu vakna ég svo með alveg hrikalega verki og hringdum upp á deild og var sagt að koma strax. Ég fór í sónar og læknirinn sagði að annar eggjaleiðarinn væri svolítið bólginn og það væri smá vökvi í kviðnum og sendi mig heim að hvíla mig. Ég gafst svo algjörlega upp á sunudagskvöldi, en þá hélt ég virkilega að eitthvað væri að springa í móðurlífinu. Ég fór upp á deild og var lögð inn í snarhasti og fór í aðgerð strax morgunin eftir.

Fóstrið hafði verið í vinstri eggjaleiðaranum en læknarnir mjólkuðu fóstrið úr eggjaleiðaranum þannig að ekki þurfti að taka hann.Við vorum ofboðslega sár og það var mikið grátið næstu dagana. Ég átti svo erfitt með að skilja að í janúar var mér sagð að allt liti vel út en samt fékk ég aftur utanlegsfóstur nokkrum mánuðum seinna.

Við ákváðum að bíða í allavega einn tíðarhring eins og okkur var ráðlagt að gera en ég byrjaði ekki á blæðingum. Ég var farin að fá ansi mörg þungunareinkenni og þessa kunnulegu verki aftur þannig að ég ákvað að taka þungunarpróf sem var jákvætt en mjög ljós lína þannig að ég tók nokkur í viðbót sem öll voru jákvæð. Þetta var á laugardegi og ég var svo hissa því að ég vissi að þungunarhormónið hefði verið farið úr líkamanum því að það var fylgst með því með blóðprufum eftir aðgerðina. Ég hringdi strax upp á deild á mánudagsmorgni og mér var sagt að koma strax upp á kvennadeild og fara í sónar og blóðprufu.

Gildin í blóðprufunni voru það lág að læknarnir skildu ekki hvernig ég gat fengið jákvætt á heimaprófi því að HCG gildin min voru aðeins 11,9 en flest heimaprófin mæla gildi ofar en 20-50.

 

Fljótlega kom í ljós að þetta var aftur utanlegsfóstur og var ákveðið að gera kviðholsspeglun, mína 3 speglun á rétt rúmum 6 mánuðum. Í þeirri aðgerð þurfti að fjarlægja hægri eggjaleiðarann og var mjög erfitt að fá þær fréttir þegar ég vaknaði eftir aðgerðina. Læknarnir vildu setja mig á getnaðarvörn því að vinstri eggjaleiðarinn var líka ónýtur og ég mátti ekki verða ólétt “á eðlilegann máta.” Okkar eina von til að eignast barn var semsagt glasafrjóvgun.

Við byrjuðum í okkar fyrstu glasafrjóvgun í október 2007, byrjuðum að sprauta mig daglega með lyfi sem heitir Superfact og er notað til að slökkva á hormónakerfinu. Við byrjuðum svo á nýju lyfi í lok október sem að kveikir á hormónakerfinu aftur og lætur eggbúin þroskast. Lyfin fóru mjög illa í mig og ég varð bara veik af þeim en maðurinn minn stóð sig eins og hetja og sprautaði mig á hverjum morgni. Maginn minn var stundum ósáttur og myndaði sko myndalega marbletti.

Við fórum reglulega upp á Art Medica til að fylgjast með hvort að eggjastokkarnir væru farnir að taka við sér og mynda eggbú en voða lítið var að gerast fyrstu vikuna og þá áttuðum við okkur á því að hylkið sem var í sprautupennanum var ekki að virka rétt og ég hafði ekki verið að fá réttann skammt og fengum við því nýtt hylki og stækkuðum skammtinn af lyfjunum. Loks kom að því að eggbúin voru tilbúin og við fengum símtal og okkur var sagt að mæta á mánudagsmorgninum til að fara í eggheimtu. Við áttum að sprauta með miðnætursprautunni kl. 23 á laugardagskvöldi, sem var gert inni á baði í afmælisveislu.

Á mánudeginum mættum við um 9:30 og ég fékk róandi lyf og verkjalyf fyrir eggheimtuna. Eggheimtan er gerð með sónartæki með nokkurs konar nál á endanum sem er stungið inn í eggjastokkana til að ná í eggin. Þegar ég settist í stólinn þá kallaði Þórður yfir vegginn “það er partý hérna”. Ég hafði semsagt oförvast rosalega og það náðust hjá mér 23 egg sem er rosalega há tala, en eggheimtan var rosalega sársaukafull og ég bara sat með tárin í augunum.
Okkur var sagt að við gætum ekki farið í uppsetningu útaf oförvuninni og það var enn eitt áfallið. Ég var upp á Art í nokkra klukkutíma því að ég var með rosalega mikla verki eftir eggheimtuna. Mér var sagt að fylgjast vel með þyngdinni og átti að hafa samband ef að ég þyngdist óeðlilega mikið næstu daga eða væri með mikla verki.

Ég svaf að mestu leiti næsta sólarhringinn en við fengum símtal frá Art á þriðjudagsmorgninum og var okkur sagt að 17 egg hefðu frjóvgast og þau yrðu öll fryst! 17 fósturvísar! Ég vaknaði um kvöldmatarleitið á þriðjudeginum og leið rosalega illa og með mikla verki. Ég fór og vigtaði mig og hafði þyngst um rúmlega 3 kg á einum sólahring og hringdi upp á Landspítalann og var lögð inn um kvöldið. Ég lá þar í nokkra daga og þar var fylgst með öllum vökva sem ég drakk og allur vökvi mældur sem kom frá mér, mælt ummálið um magann og þyngdin reglulega þvi að það getur safnast svo rosalegur vökvi í kviðinn þegar konur oförvast.

Við erum í raun rosalega heppin hvað við fengum marga fósturvísa í frystirinn. Við fórum í uppsetningu á frystum fósturvísum í desember 2007 og fengum setta upp 2 fósturvísa með einkunina 2 og 2.5, en fengum því miður neikvætt í það skipti. Við fórum í aðra uppsetningu í febrúar 2008 og það voru settir upp 2 frostpinnar sem báðir fengu einkunina 2.5. Annar þeirra hélt sér fast og þrátt fyrir blæðingar og mikið vesen á meðgöngunni kom yndislega fallegur og heilbrigður drengur í heiminn eftir erfiða fæðingu þann 19.nóvember 2008.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

*

You may use these HTML tags and attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>