nýjustu greinarnar

Dásamlegar morgunverðarmúffur

mynd 1

 

 

 

Dásamlegar morgunverðarmúffur

Flestum börnum þykir gaman að fá að spreyta sig við eldhúsverkin. Að fá að hella, mæla, hræra, smakka og finna ilm tilheyrir eldhúsverkunum og svo eru mun meiri líkur á að þau vilji smakka nýjungar ef þau fá að taka þátt í undirbúningnum og vita nákvæmlega hvað fór í matinn. Óskilgreindur matur í dulbúningi fer oftast illa í litla munna, sérstaklega hjá eldri krökkum sem vilja vita upp á hár hvað þau láta ofan í sig. Það er líka ekkert nema jákvætt að börn vilji vita hvað þau borða því ef þau eru vön því að aðstoða í eldamennsku og þekkja muninn á spínati og spergilkáli eru mun meiri líkur á að þau eldi sjálf hollari mat þegar þau verða eldri. Svo við skulum ekki alltaf reyna að dulbúa matinn fyrir börnin okkar heldur kenna þeim hvaðan maturinn kemur, segja þeim af hverju maður vill borða hollan og fjölbreyttan mat og leyfa þeim að vera með í eldhúsinu. Þessar mjúku og gómsætu morgunverðarmúffur eru í uppáhaldi hjá minni fjölskyldu. Þær eru eggjalausar og fullar af hollustu, ef þið viljið ekki nota hnetur er lítið mál að skipta þeim út eða hreinlega bara sleppa þeim. Allt sem þarf í þessar er skál og skeið svo um að gera að leyfa litlum fingrum að hræra og sjá hvað fer í skálina.
mynd2

 

 

 

Morgunverðar múffur (12 múffur):

▪  2,5 dl grófmalað spelt eða heilhveiti
▪  2,5 dl grófir hafrar
▪  3 msk chia fræ
▪  100 gr valhnetukjarnar gróft muldir
▪  3 tsk vínsteinslyftiduft
▪  1/2 tsk matarsódi
▪  1/4 tsk salt
▪  2 bananar, gróft stappaðir
▪  1/2 dl olía
▪  2 dl ab mjólk
▪  2 tsk vanilluextract
▪  1 tsk rifinn sítrónubörkur
▪  1/2 dl hunang
▪  2 dl frosin bláber

mynd3

 

 

Aðferð: Hitið ofn í 170 gráður með blæstri. Blandið saman í skál, speltinu, höfrum, chia fræjum, valhnetum, lyftidufti, matarsóda og salti. Í annarri skál blandið saman stöppuðum bönunum, olíu, ab mjólk, vanillu, sítrónuberki og hunangi. Blandið svo þurrefnunum og blautu blöndunni afar gróflega saman með skeið, alls ekki hræra mikið. Blandið bláberjunum varlega saman við og setjið í 12 pappírsklædd múffuform. Bakið í 18-20 mínútur. Geymist í 2-3 daga í ísskáp en má vel frysta og taka út eftir þörfum.
mynd4

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Sent inn af Helenu Gunnarsdóttur

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

*

You may use these HTML tags and attributes: <a href="" title=""> <abbr title=""> <acronym title=""> <b> <blockquote cite=""> <cite> <code> <del datetime=""> <em> <i> <q cite=""> <strike> <strong>