nýjustu greinarnar

Talið niður til jóla

Talið niður til jóla

Desember er mættur í allri sinni dýrð, mikið sem það er dásamlegt að fá að upplifa hann sem foreldri og sjá spenning og eftirvæntingu hjá börnunum þegar jólin fara að nálgast. Fjöldi dagatala eru ótrúleg í dag en ég minnist þessa dásamlegu súkkulaðidagatalanna frá LIONS klúbbnum sem við systkinin fengum með litlu tannkremstúpunni fastri á. Það var hending ef ég náði að opna bara einn mola á dag, oftast var maður búinn með það löngu fyrir aðfangadag.

Í ár fær barnið á þessu heimili tvenns konar dagatöl. Ástæða þess er einfaldlega sú að barnið í mér er farið að brjótast fram og mig langaði að bjóða henni allt sem var í boði en auðvitað verður maður að velja og hafna. Leikfangadagatölin eru hreint út sagt snilld fyrir litla snillinga og varð LEGO dagatal fyrir valinu þar sem kubbar eru mjög vinsælir þessa dagana.

Svo kom að því að leyfa mér að setja saman viðburðardagatal. Slíkt dagatal er frábær leið til að minna okkur á að samverustundir með börnunum eru svo mikilvægar og í hraða nútímans er gott að hafa eitthvað sem minnir mann á að staldra við og njóta þess að eiga stundir saman. Ég komst í gamalt veggdagatal sem móðir mín á og fékk að nýta það en í raun er möguleiki á að nota alls konar leiðir í uppsetningu á slíku dagatali. Það er ekki endilega málið að hafa viðburð hvern einasta dag en reglulega þannig að við munum að litlu krílin okkar elska að eiga stundir með okkur þar sem áhyggjur og dagleg vandamál koma ekki upp.

Viðburðardagatal:

Notið hvað sem hendi er næst til að setja upp dagatalið, ég nota gamlan jólaveggslöber með hringjum til að hengja á og tölustöfum við hvern hring. Einnig er hægt að taka fram garn og hengja á viðarþvottaklemmur með tölustöfunum 1-24 og setja á góðan stað þar sem börnin ná til.

Fyrir hvern valinn dag er búið að skrifa einhvern viðburð þar sem fjölskyldan getur verið saman. Ef börnin eru enn það ung að þau geti ekki lesið er auðvelt að setja myndir í staðinn sem lýsa því sem gera á. Þessir viðburðir þurfa ekki að kosta eða vera mjög merkilegir því málið snýst aðallega um að gera eitthvað saman. Hér kemur dæmi um hvað ég set í viðburðardagatal heimilisins:

Sundferð

Jólabakstur

Út að leika

Gefa öndunum brauð

Bíó

Jólaföndur

Kúr upp í sófa með jólamynd

Jólakortaföndur

Skreyta jólatréð

Ferð í jólaþorpið og skoða jólaljós

 jola

Einnig er hægt að hafa suma hlutina oftar en einu sinni því börnin vilja auðvitað samverustundir með foreldrum sínum, er það ekki? Alla veganna held ég að þau séu lítið að hugsa um hvað sé í raun verið að gera hverju sinni, bara að þau séu að gera eitthvað með okkur.

Njótið þess að vera saman í skammdeginu og leyfið börnunum að vera með í jólaundirbúningnum, minningar eru eitthvað sem við eigum alla ævi.

Munum það og höfum gaman saman.

Kveðja,

Brynja Stef.